miðvikudagur, 17. febrúar 2010

Góðu fréttirnar: Flogið á úrgangi

British Airways hefur samið við breska fyrirtækið Solena um að kaupa allt þotueldsneyti sem það mun framleiða úr sorpi. Solena mun í byrjun framleiða árlega 16 milljónir gallona af þotueldsneyti úr hálfri milljón tonna af lífrænum heimilisúrgangi. Það jafngildir tveimur prósentum af eldsneytisþörf BA á Heathrow flugvelli.

þriðjudagur, 2. febrúar 2010

Davos er kirkjudagur heimskapítalismans,sem hefur það nokkuð gott, takk fyrir

Íslendingum er einkar lagið að kappræða til hlítar um aukaatriði en forðast kjarna málsins í lengstu lög. Þetta er þekkt þjóðareinkenni, sem margir koma auga á, sem kynnast Íslendingum. Annað, sem greinir okkur frá norrænu frændfólki er sú árátta að telja sig hafa vit á öllum málaflokkum, nægilega vel til þess að grípa inn í umræður þeirra, sem þó eiga að vera læsir á vandann.

Ég minnist þess ekki úr almannaumræðu í þeim löndum, þar sem ég hef búið, að aðrir taki almennt til máls en þeir, sem hafa vissa lágmarksþekkingu og helzt betur. Þrátt fyrir þetta tek ég sjálfur þátt í hinni nýju þjóðaríþrótt; að hafa vit á málum. Held mig þó við svið, þar sem ég tel mig hafa kynnt mér mál en læt Eurovision eiga sig, handbolta og séð-og-heyrt Íslendingana, sem eru heimsfrægir um allt Ísland.

Ég hef fylgst að venju með Davos gegn um daglegan lestur blaða og þykist sjá að þar sé umræðan farin að verða meira niðri á jörðinni en áður tíðkaðist. Bankamenn eru syndaselirnir og Zarkozy boðaði nýjan og mannlegan kapítalisma.  Það var minna af ungstjörnum en áður, en þó mun Björgólfur Thor hafa mætt ásamt Íslandsforseta, enda hafa þeir áður  setið saman í einkaþotum. Melinda Gates var mætt á staðinn ásamt manni sínum og tilkynnti um 10 milljarða dollara framlag þeirra hjóna næsta áratug til bólusetninga barna í þriðja heiminum. Þau hjón eru hin viðfeldna ásýnd kapítalismans.

Davos er kirkjudagur heimskapítalismans og þar var ekki ákveðið að leggja hann niður. Þvert á móti. Menn vilja bara passa að bankadrengirnir flytji ekki allir lögheimili sitt til Zug í Sviss til þess að losna undan hátekjuskatti.

Við það að lesa Davos fréttir og horfa á viðtöl Richard Quest á CNN við stórstjörnur heimspólitíkurinnar og auðvaldsins fór ég að leiða hugann að því hvað væri brýnast fyrir Íslendinga að gera til þess að rísa upp úr þeirri eymd, sem þjóðin hefur sokkið í. Það er gott og brýnt að gera upp hrunið, ná illa fengnu fé til baka og sjá til þess að hinir brotlegu afpláni refsingu. Einhverja refsingu.

En brýnna er að endurmeta atvinnulífið í heild og leggja áherslu á störf, sem afla raunverulegra innistæðna í hagkerfið (les: gjaldeyri) en gæta þess um leið að kála ekki starfsreynzlu og þekkingu, sem hefur áunnizt. Í útrásarvímunni glataði þjóðin trúnni á störf, sem krefjast verkþekkingar og vinnu.

Það verður erfiðara um sinn að afla erlends fjár til nýrra verkefna á Íslandi en alls ekki útilokað. Það þarf bara að hafa fyrir því og að rækta sambönd, skapa traust og standa við orð okkar. Grunnur að því er að hætta sjálfsvorkunn og blindingsleik og að vinna með Hollendingum og Bretum að lausn á Icesave málinu, sem geti orðið okkur til sóma og skapað velvilja í okkar garð í þessum mikilvægu viðskiptalöndum okkar. Hrokafullur málflutningur eins og við höfum orðið vitni að verður um skamma stund skemmtiefni erlendra fjölmiðla, en grefur undan trúverðugleika okkar til lengri tíma litið.

laugardagur, 31. október 2009

Nafnleynd ritsóðanna ber að banna í nýjum fjölmiðlalögum.


Frelsi getur ekki verið til án ábyrgðar. Slíkt ástand héti í bezta falli stjórnleysi og lyti því lögmálum frumskógarins. Efnahagsástand heimsins ber nú merki tilraunar til þess að koma á óábyrgu og óheftu athafnafrelsi, þar sem verkfærin til þess að hafa eftirlit og veita aðhald reyndust ónýt.

Sama á við um þau sjálfsögðu mannréttindi, sem við köllum tjáningarfrelsi. Það eiga allir að hafa rétt til að tjá hug sinn en það verða allir að gera með persónulegri ábyrgð. Í prentlögum er bannað að dreifa prentuðu máli án þess að þar sé getið ábyrgðarmanns. Persónuníð er ekki sérstaklega bannað í einkabréfum eða símtölum en um leið og efni þeirra er gert opinbert fellur ábyrgð á þann, sem ritar og að vissu leyti á þá sem dreifa efninu.

Netið er barn nútímatölvu- og fjarskiptatækni, sem erfitt hefur reynzt að fella undir svipað eftirlit og prentmiðlar lúta. Það hefur gefið mönnum tæki til þess að skjóta úr launsátri að æru annarra, svo sem á spjallrásum og í athugasemdadálkum netmiðla og dregið hina almennu samfélagsumræðu niður í svaðið.

Nafnlausar umræður í netheimum eru brot á þeirri meginreglu að orðum skuli fylgja ábyrgð, og þess vegna er brýnt að við setningu nýrra laga um fjölmiðla verði komið í veg fyrir iðju þessarar nýju stéttar ritsóða.

föstudagur, 9. október 2009

Er tvíreiknað og vandinn því ofmetinn?

Í frétt frá Samfylkingunni í dag segir m.a. þetta.


"Í þessu samhengi má nefna að skuldir ríkisins munu vaxa úr rúmum 300 milljörðum króna árið 2007 í rúma 1700 milljarða árið 2010 eða um nærri eina landsframleiðslu - 1400 milljarða króna. Þar er þó ekki ein króna vegna Icesavemálsins því sú upphæð telur ekki fyrr en eftir 7 ár, 2016.

En stærstu póstarnir í skuldunum eru þessir:
- 350 milljarðar eru vegna halla ríkissjóðs
- 350 milljarðar vegna lána vinaþjóða til þess að styrkja gjaldeyrisforðann
- 300 milljarðar vegna endurfjármögnunar banka og fjármálafyrirtækja
- 150 milljarðar vegna gengisþróunar á eldri lánum
- 300 milljarðar vegna Seðlabanka Íslands, til að forða gjaldþroti hans. Skuld ríkisins  vegna afskrifaðra lána Seðlabanka Íslands jafngildir þreföldum niðurskurði fjárlagahallans á milli áranna 2009 og 2010 

Vegna þessara vaxandi skulda er vaxtakostnaður ríkisins orðinn næst stærsti liður fjárlaga á eftir útgjöldum til félags- og tryggingamála, um 100 milljarðar króna. Þessi vaxtabyrði ríkisins mun að lokum verða stærsti útgjaldaliður fjárlaga ef ekkert er gert."

Þetta kveikir athugasemdir:
  • 350 milljarða vegna halla á ríkissjóði verður einfaldlega að afla með niðurskurði á næstu árum.
  • 350 milljarða lán til að styrkja gjaldeyrisforðann verða í sjóði og væntanlega á vöxtum.
  • 300 milljarðar til endurfjármögnunar banka verður eign, sem vonandi má selja ábyrgum aðilum.

Þá eru eftir 150 milljarðar vegna gengisþróunar á eldri lánum og 300 milljarða mistök Seðlabankans, sem sannanlega verður að telja til sértækra skulda, sem ekki verður flúið frá, leyst með öðrum hætti, gert að seljanlegri bankavöru eða geymt á reikningi.


Við erum því að tala um 450 milljarða vanda, ekki satt, en ekki 1.700 milljarða?


Nóbelsverðlaunin í ár eru sigur diplómatískra lausna


Fyrir fáum árum átti ég ásamt norrænum diplómötum í Kaupmannahöfn hádegisfund með ritara norsku Nobelsnefndarinnar, en sú velur handhafa friðarverðlauna, kennd við Alfred Nobel hinn sænska. Önnur verðlaun eru veitt af sænsku nóbelsakademíunni. Ritarinn útskýrði fyrir okkur viðleitni nefndarinnar til þess að hafa áhrif á gang mála en ekki endilega að veita verðlaun fyrir unnin afrek.

Verðlaunin eru oft umdeild þegar þau eru veitt, en síður þegar frá líður, þótt til séu undantekningar. Að tillögu íslenskra þingkvenna voru forvígismanni frelsisbyltingarinnar á Austur-Tímor, José Ramos-Horta
veitt verðlaunin 1996 og það er óumdeilt að athygli heimsins beindist að sjálfstæðisbaráttunni og leiddi að lokum til viðurkenningar á sjálfstæði landsins.

Barack Obama voru í morgun ekki veitt friðarverðlaunin fyrir árangur hans, heldur hvert hann stefnir. Þau ættu að örva hann enn frekar til dáða og beina sjónum umheimsins að þeirri viðleitni hans til þess að öflugasta stórveldi heims reuyni að ná árangri með diplómatíu fremur en vopnavaldi.

laugardagur, 3. október 2009

Eftirlitsleysið - ekki frelsið - var skaðvaldurinn

Ýmsir halda því fram að efnahagshrun Íslands sé frjálshyggjudýrkun Davíðs Oddssonar og vina hans að kenna. Frjálshyggjan, sem hagkenning, hefur hlotið slæma dóma í kjölfar efnahagssamdráttar vesturlanda á liðnu ári, en hæpið er nú samt að dæma aukið viðskiptafrelsi sem ranga kenningu.

Undirrót hrunsins má nú samt engu að síður rekja til þeirra tveggja þjóðarleiðtoga, sem innleiddu frjálshyggju sem grundvallarstefnu stjórna sinna í upphafi níunda áratugarins; Ronald Reagan og Margaret Thatcher. En það var ekki athafnafrelsið, sem var meinvaldurinn, heldur eftirlitsleysið (deregulation), sem fylgdi.

Afleiðingarnar eru margvíslegar í daglegu lífi; flugöryggi hefur minnkað sem og öryggi matvæla. Við þekkjum svo eina hlið þessa, þegar eftirlit með bankabólgunni fór í hendur vina og félaga þeirra, sem áttu bankana.

Annars má benda á mjög góða umfjöllun um þetta í nýrri mynd Michael Moore, sem kemur á markað þessa dagana.

sunnudagur, 27. september 2009

Gífurlega merkingarlaust orð


Nafnorðið *gifur" merkir "tröll" samkvæmt orðabók Johans Fritzner um fornnorrænt mál. Þetta orð lifir í nútímamáli m.a. í lýsingarorðinu *gífurlegt* eða "tröllslegt, óskaplegt, hrikalegt", eins og segir í orðabók Menningarsjóðs. Það er meira en mikið, miklu meira. Það er ein áhrifamesta mynd þess orðs.

En ekki lengur. Með dyggri aðstoð fjölmiðlafólks, semanber erlendar fréttir Sjónvarpsins í kvöld er orðið *gífurlegt* orðið merkingarlaust. Það kemur nú í stað orðanna mikið, umtalsvert, þó nokkuð. Ofnotkun af þessu tagi útrýmir merkingu gamals og góðs, forníslenzks orðs, sem gjarnan mætti nota í hófi til að auðga eða krydda frásögn.

Ef til vill er þetta hluti af öfugþróun í fréttaflutningi, sem orðið hefur vart á síðustu árum; tilhneigingu í þá átt að ofgera í frásögn. Í stað þess að segja að hús hafi verið sprengt, er nú að öllu jöfnu sagt að það hafi verið sprengt "í loft upp!" Jafnvel flugvélar á flugi hafa í fréttatímum verið sprengdar "í loft upp" þótt líklegra sé að þær hafi verið sprengdar til jarðar niður. RUV sagði áðan að Angela Merkel kanslari njóti "gífurlegra" vinsælda. Kosningaúrslit benda til vinsælda, en varla tröllslegra.

föstudagur, 25. september 2009

Útrýmum villimennsku í samfélaginu


Það þarf að hefja almenna baráttu gegn villimennsku í samfélaginu. Bæði gegn ofsaræningjum útrásar- og bankaveldisins og líka gegn almennum ruddaskap, græðgi, frekju og tillitsleysi.

Fréttó segir í dag frá veiðiþjófum, sem rændu og slátruðu hrygnum úr klakkistu veiðifélags Fnjóskár. Það segir sig sjálft að þessi "sómamenn" valda veiðifélaginu tjóni þar sem erfitt getur verið að fá fiska til undaneldis svo seint.

En ruddaskapurinn er allsstaðar á ferð. Villimenn á fjórhjólum æða um viðkvæm gróðursvæði utan vega og valda illbætanlegu tjóni á náttúrunni. "Venjulegt fólk" leggur í streitubræði sinni bílum sínum í stæði merkt fötluðum eða á gagnstéttir og hindrar þannig för barnavagna. Að ekki sé nú minnzt á ölóða brjálæðinga eða dópaða rugludalla, sem ráðast á saklaust fólk í miðborginni um hverja helgi.

Lee, fyrrum forsætisráðherra Singapore hóf á sínum tíma herferð gegn sóðaskap með því að banna tyggigúmmí. Menn voru fangelsaðir fyrir að hrækja tyggjó á götur og smám saman fóru menn að virða reglur um snyrtilega umgengni í borgríkinu. Guiliani, fyrrum borgarstjóri í New York hóf herferð gegn villimennsku og glæpum með því að taka hart á rúðubrotum. Það vatt upp á sig og nú er New York með öruggari borgum að dveljast í.

Við þurfum svipaða forystu hér á landi, ekki aðeins með tilmælum eða reglugerðabreytingum, heldur mælanlegum aðgerðum gegn tillitsleysi og villimennsku.